Afþreying á Snæfellsnesi
Við á Búðum erum reiðubúin til að aðstoða þig með og skipuleggja fyrir þig ýmsa afþreyingu á Snæfellsnesi. Það er af mörgu að taka, skipulagðar ferðir, útsýnisflug með þyrlu, hestaferðir, gönguferðir, sjóferðir, stangveiði, golf, ferðir með rútu eða safari-ferðir í breyttum jeppum. Möguleikarnir eru í raun óendanlegir, allt eftir hugmyndum þínum og væntingum. Starfsfólk Hótel Búða býr yfir viðamikilli reynslu og þekkingu og aðstoðar fúslega við að skipuleggja ýmiss konar afþreyingu. Við leggjum mikinn metnað í að upplifun þín verði sem ánægjulegust meðan á dvöl stendur.
Hér eru ferðir sem við bjóðum upp á
Sæferðir
Ævintýrasiglingar frá Snæfellsnesi.
Í ferðunum með Sæferðum getur þú smakkað á hrárri hörpuskel beint úr sjónum, séð fjölbreytt fuglalífið á Breiðafirði, notið stórbrotinnar náttúrunnar og heimsótt kyrrlátu eyjuna Flatey og margt fleira.
Snjósleðaferðir á Snæfellsjökul
Snjósleða- eða snjóbílaferðir á Snæfellsjökul eru skipulagðar frá Arnarstapa. Snjófell á Arnarstapa skipuleggur ferðir á jökulinn og er með reglubundnar ferðir um helgar sem og eftir samkomulagi.
Stangveiði á Snæfellsnesi og nágrenni
Vatnasvæði Lýsu og Vatnsholtsá (Lýsuvatnakerfið) er nafntogað veiðisvæði stangveiðimanna. Áin Lýsa, Torfavatn, Reyðarvatn, Lýsuvatn, Hóp og Vatnsholtsá tilheyra þessu skemmtilega veiðisvæði. 10 stangir eru í senn á svæðinu og gilda í öll vötn. Veiðitímabilin eru tvö; frá 1. apríl til 30 júní (silungur) og 1. júlí til 20. september (silungur og lax). Áður fyrr voru menn að fá sjóbirting og lax á svæðinu þótt það sé orðið sjaldgæfara í dag. Allt að 19 punda silungur hefur veiðst á sæðinu og laxinn frá hálfu til 4 kílógrömm.
Vatnsholtsá gaf rúmlega 300 laxa árið 1979. Veiði í Hóp er bönnuð.
Golf í nágrenni Hótels Búða
Fjórir golfvellir eru á Snæfellsnesi. Við Langholt skammt frá Búðum, í Ólafsvík, Suður-Bár nálægt Grundarfirði og í Stykkishólmi.
Langholt er ferðaþjónusta í Staðarsveit rétt áður en komið er á Búðir – á leið út nesið. Í Langholti er Garðavöllur, nettur og þægilegur golfvöllur – 9 holu, par 32.
Hestaferðir, hestaleiga í Staðarsveit
Á Snæfellsnesi eru nokkrar hestaleigur m.a. á Lýsuhóli. Starfsfólk Hótels Búða getur aðstoðað þig með að finna leigu og ferðatilhögun sem hentar þér. Í Ferðaþjónustu má finna frekari upplýsingar um hestaleigur.